Steini lostinn yfir ummælum Blatters

Sepp Blatter skaut langt yfir markið, að mati eiganda Birmingham.
Sepp Blatter skaut langt yfir markið, að mati eiganda Birmingham. Reuters

David Gold, annar eigenda enska knattspyrnufélagsins Birmingham City, kveðst steini lostinn yfir ummælum Sepps Blatters, forseta FIFA, í garð Martins Taylors, varnarmanns Birmingham.

Blatter sagði fyrr í dag að þyngja ætti refsingu Taylors fyrir brotið á Eduardo í leiknum við Arsenal til muna og hann ætti að vera í banni þar til hann gerði sér grein fyrir því hvað hann hefði gert með því að fótbróta Króatann. Hann gaf einnig til kynna að FIFA myndi taka málið upp og dæma Taylor til þyngri refsingar en enska knattspyrnusambandið gerði.

„Ég var fyrir gífurlegum vonbrigðum með að heyra þessi orð frá forseta FIFA og tjái mig aðeins um þetta vegna þess hve mjög ég finn til með Martin Taylor. Þetta er búinn að vera hræðilegur atburður fyrir hann. Ég veit að vesalings Eduardo er sá fótbrotni en legg áherslu á að Taylor ber þungar byrðar vegna þessa og er niðurbrotinn maður.

Ég get staðfest að hann gæti aldrei gert svona lagað af ásetningi og legg áherslu á að hann er fyrirmyndar knattspyrnumaður sem hefur fengið tvö rauð spjöld á fimmtán ára ferli. Ég var steini lostinn vegna ummæla forseta FIFA. Þetta er innanlandsmál sem á að vera í höndum úrvalsdeildarinnar og enska knattspyrnusambandsins og það er leitt að heyra hann lýsa því yfir að þessir aðilar ráði ekki við sín mál.

Blatter er frjálst að hafa sínar skoðanir en hann skaut langt yfir markið með þessari íhlutun sinni. Að mínu mati þarf Martin Taylor ekki aðeins að taka út þriggja leikja bann, heldur mun þetta atvik fylgja honum allan hans knattspyrnuferill," sagði David Gold við Sky Sports í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka