Barnsley var rétt í þessu að slá út bikarmeistara Chelsea út í átta liða úrslitum ensku bikarkeppninnar en liðin áttust við á Oakwel heimavelli Barnsley, sem er í 19. sæti 1. deildarinnar. Kayode Odejayo skoraði sigurmarkið með skalla á 66. mínútu og eftir það sóttu liðsmenn Chelsea látlaust að marki heimamanna en tókst ekki að jafna metin.
Þetta er annað úrvalsdeildarliðið sem Barnsley slær út en liðið gerði sér lítið fyrir og lagði Liverpool að velli á Anfield í 16 liða úrslitunum.
Þar með eru bæði Englandsmeistararnir og bikarmeistararnir fallnir úr leik en fyrr í dag gerði Portsmouth sér lítið fyrir og sigraði Manchester United á Old Trafford, 1:0.
Síðustu tveir leikirnir í 8 liða úrslitunum fara fram á morgun. Klukkan 14 tekur Middlesbrough á móti Cardiff á Riverside og klukkan 18 mætast Bristol Rovers og WBA. Undanúrslitin verða spiluð á Wembley.