Fernando Torres hefur heldur betur verið í sviðsljósinu með Liverpool að undanförnu. En það verður félaginu dýru verði keypt ef hann skorar gegn Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.
Reyndar skiptir ekki máli hvort markið komi í dag eða í einhverjum næstu leikja. Torres er búinn að skora 24 mörk fyrir Liverpool á tímabilinu en í samningi félagsins við Atlético Madrid um kaupin á spænska landsliðsmiðherjanum var ákvæði um að ef hann næði að skora 25 mörk á þessum vetri þyrfti Liverpool að greiða aukalega 350 þúsund pund, 48 milljónir króna, til spænska félagsins.
Það er reyndar ekki mjög há tala miðað við kaupverðið sjálft sem var 26,5 milljónir punda, eða rúmir 3,6 milljarðar króna. Líkast til greiða forráðamenn Liverpool Spánverjunum 350 þúsund pundin með bros á vör.
Liverpool tekur á móti Newcastle á Anfield í dag og miðað við siglinguna sem hefur verið á Torres undanfarnar vikur, og gengi Newcastle á sama tíma, er hann væntanlega líklegasti markaskorarinn af öllum sem ganga til leiks klukkan 15.00.