Portsmouth sigraði Man Utd

Thomas Kuszczak fer af velli eftir að honum var sýnt …
Thomas Kuszczak fer af velli eftir að honum var sýnt rauða spjaldið. Rio Ferdinand klæðist markmannstreyjunni. Reuters

Hermann Hreiðarsson er í byrjunarliði Portsmouth gegn Manchester United í 8-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar á Old Trafford. Leikurinn hófst núna kl. 12.45. United hefur aðeins tapað einu sinni í síðustu 13 leikjum, og þess má geta að Portsmouth hefur ekki sigrað á Old Trafford síðan 1957!

Man. Utd.: Edwin Van der Sar - Wes Brown, Rio Ferdinand, Nemanja Vidic, Patrice Evra - Cristiano Ronaldo, Paul Scholes, Owen Hargreaves, Luis Nani - Wayne Rooney, Carlos Tevez.

Portsmouth: David James - Glen Johnson, Sol Campbell, Sylvain Distin, Hermann Hreiðarsson - John Utaka, Lassana Diarra, Papa Bouba Diop, Niko Kranjcar - Sulley Muntari, Nwankwo Kanu.

Varamenn United eru Kuszcak, Anderson, Ji-Sung Park, Carrick og O'Shea. Louis Saha átti að vera í hópi varamanna en meiddist í upphitun og Park er í hópnum í hans stað.

Varamenn Portsmouth eru Ashdown, Lauren, Baros, Mvuemba og Hughes.

Dómari er Martin Atkinson.

- - - -

Þrjár breytingar eru á liði United frá leiknum við Lyon í Meistaradeildinni í vikunni. Scholes, Tevez og Hargreaves koma inn í stað Darren Fletcher, Michael Carrick og Anderson.

Ein breyting er á liði Portsmouth frá því liðið mætti Everton um síðustu helgi; John Utaka kemur í stað Jermain Defoe, sem má ekki leika með Portsmouth í bikarkeppninni í vetur því hann tók þátt í keppninni með Tottenham fyrr á tímabilinu.

- - - -

3. mín. Portsmouth fær fyrstu hornspyrnu leiksins.

5. mín. Scholes skallar framhjá marki Portsmouth eftir aukaspyrnu Nani frá hægri.

7. mín. Ronaldo fellur í teignum eftir að Sylvain Distin ýtir í hann. Dómarinn kemur á óvart og lætur leikinn halda áfram. Sir Alex Ferguson er óhress að ekki skyldi dæmt á Distin; hann óð niður að hliðarlínunni ófrýnilegur á svip.

11. mín. Papa Bouba Diop hjá Portsmouth fær fyrsta gula spjald leiksins fyrir að toga í treyju Ronaldos við miðlínuna.

United sækir meira en Portsmouth fær nú aðra hornspyrnuna í leiknum, eftir að Vidic skallar boltann aftur fyrir eftir fyrirgjöf.

19. mín. United nær skyndisókn strax eftir hornspyrnu Portsmouth, Tevez sendir á Rooney sem kemst einn í gegn á móti James í markinu. Rooney er of lengi að skjóta og vörnin nær að hreinsa - en beint á Tevez sem á fast skot að marki en Glen Johnson bjargar á línu með skalla. Þarna slapp Portsmouth með skrekkinn!

21. mín. Wayne Rooney fær gult spjald fyrir brot á Krajncar.

22 mín. Portsmouth fær þriðju hornspyrnuna, Hermann Hreiðarsson skallar að marki en Van der Sar á ekki í erfiðleikum með að verja.

35. mín. Nani fellur í vítateig Portsmouth eftir baráttu við Utaka. Dómarinn aðhefst ekkert og hefur amk rétt fyrir sér í þetta skipti.

38. mín. Diarra brýtur á Ronaldo og fær gult spjald - annar leikmaður Portsmouth sem bókaður er í dag.

43. mín. Hermann á skot af 10 metra færi sem fer í Ronaldo og aftur fyrir. Hornspyrna.

44. mín. Vidic skallar hraustlega frá marki United eftir hornspyrnu Diarra.

45. United fær horn. Nani sendir fyrir en Karnjcar skallar frá.

Ein mínúta bætist við þær hefðbundnu 45 vegna tafa.

Nani tekur aftur horn fyrir United. James markvörður missir af boltanum þegar hann kemur fyrir markið en Johnsen hreinsar frá.

Dómarinn hefur flautað til leikhlés. Þetta hefur verið fjörugur og skemmtilegur leikur, United sterkara liðið en Portsmouth hefur sýnt að liðið getur ógnað heimamönnum. Unitedmenn eru óhressir með að hafa ekki fengið vítaspyrnu snemma leiks þegar brotið var á Ronaldo í teignum.

46. mín. Seinni hálfleikurinn er hafinn. Tomasz Kuszcak er kominn í markið hjá Manchester United. Van der Sar hefur meiðst.

49. mín. Portsmouth fær hornspyrnu. Ronaldo skallar frá.

52. mín. Nani á skot að marki Portsmouth af 20 m færi - en það er laflaust. James ver auðveldlega.

53. mín. Muntari þrumar að marki United af 30 m færi, en West Brown kastar sér fyrir hann og stöðvar skotið.

54. mín. Fyrsta skipting dagsins: Milan Baros kemur inn í lið Portsmouth í stað Kanus.

United er sterkara liðið í leiknum og virkar líklegra til þess að skora, en Portsmouth er hættulegt í skyndisóknum.

57. mín. United fær hornspyrnu eftir að Distin hreinsar fyrirgjöf Wes Brown aftur fyrir.

60. mín. Tevez skýtur að marki Portsmouth, boltinn fer í Johnson og aftur fyrir endalínu. United fær aðra hornspyrnu sem ekkert verður úr.

63. mín. Diarra skýtur að marki United af 30 m færi. Hargreaves kemst í veg fyrir boltann.

65. mín. Ronaldo skallar framhjá marki Portsmouth af 20 m færi eftir fyrirgjöf Nanis.

68. Tvöföld skipting hjá Manchester United: Carlos Tevez kemur af velli og Oliveira Anderson leysir hann af hólmi. Þá kemur Michael Carrick inná í stað Owens Hargreaves.

69. Ferguson virðist ætla að nota þrjá menn í fremstu víglinu; Rooney, Ronaldo og Nani.

70. DAUÐAFÆRI UNITED. Carrick kemst einn í gegnum vörn Portsmouth eftir sendingu Ronaldos, nær að leika á James markvörð og markið virðist opið. En Distin nær á síðustu stundu að bjarga á marklínu.

73. SKOT Í STÖNG. Patrice Evra, vinstri bakvörður Man Utd, á skot að marki en James ver boltann í stöninga.

Mark liggur í loftinu.

74. mín. Skipting hjá Portsmouth: Lauren kemur inn á í stað Utaka.

75. Ronaldo þrumar að marki Portsmouth af stuttu færi en James ver mjög vel. Engin hætta eftir hornspyrnuna.

76. RAUTT SPJALD. Milan Baros kemst einn inn fyrir vörn United eftir sendingu Kranjcar. Baros leikur á Pólverjann í marki heimaliðsins og á greiða leið að opnu marki - en Kuszcak brýtur á honum. Vítaspyrna dæmd og Kuszcak fær rauða spjaldið.

RIO FERDINAND Í MARKMANNSTREYJUNA. Van der Sar meiddist og Kuszcak kom inn á í hálfleik, þannig að útlitið er ekki gott fyrir United.

78. mín. PORTSMOUTH SKORAR! Muntari skorar örugglega úr vítaspyrnunni, sendir boltann neðst í vinstra hornið.

United hefur verið betra liðið í leiknum en ekki er spurt að því núna. Heimamenn hafa verið mun meira með boltann og fengið miklu betri færi.

81. mín. Þriðja og síðasta skipting Portsmouth; Richard Hughes kemur inn á í staðinn fyrir Kranjcar.

Aðeins sjö mínútur eru eftir af hefðbundnum leiktíma. Skyldi Hermann Hreiðarsson fagna sigri gagn Manchester United í fyrsta skipti á ferlinum?

Leikmenn Portsmouth reyna að halda boltanum en gengur það ekki of vel þrátt fyrir að þeir séu einum fleiri.

86. mín. Nú fer um stuðningsmenn Portsmouth. United fær aukaspyrnu um 25 m frá marki og Ronaldo býr sig undir að spyrna. Hann skoraði frábært mark beinit úr aukaspyrnu í deildarleiknum fyrr í vetur.

86. Ronaldo þrumar rétt yfir markið úr aukaspyrnunni.

89. Anderson í þokkalegu færi fyrir United en skot hans fer framhjá. Hefði getað gert betur.

90. Leikið verður í fjórar mínútur fram yfir hinir venjulegu 45 í seinni hálfleik vegna tafa.

UNITED ÚR LEIK. Búið að flauta til leiksloka. Hermann Hreiðarsson er í fyrsta skipti í sigurliði gegn Manchester United og Portsmouth verður í hattinum þegar dregið verður í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar.

Brotið á Ronaldo í leiknum á Old Trafford áðan.
Brotið á Ronaldo í leiknum á Old Trafford áðan. Reuters
Alex Ferguson kvartar við fjórða dómarann þegar United-menn vildu fá …
Alex Ferguson kvartar við fjórða dómarann þegar United-menn vildu fá víti snemma leiks en ekkert var dæmt. Reuters
Lassana Diarra og Owen Hargreaves berjast um boltann.
Lassana Diarra og Owen Hargreaves berjast um boltann. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert