Curbishley fær stuðning frá stjórn West Ham

Alan Curbishley knattspyrnustjóri West Ham.
Alan Curbishley knattspyrnustjóri West Ham. Reuters

Stjórn West Ham hefur sent frá sér yfirlýsingu á vef félagsins þar sem fram kemur að knattspyrnustjórinn Alan Curbishley njóti fulls trausts hjá félaginu. West Ham, sem er í eigu Björgólfs Guðmundssonar, hefur tapað þremur síðustu leikjum sínum í deildinni með markatölunni 4:0 gegn Chelsea, Liverpool og Tottenham.

„Stjórn West Ham viðurkennir að úrslitin í síðustu leikjum liðsins hafi verið mikil vonbrigði og eru ergjandi fyrir alla sem að félaginu koma. Hins vegar er starf Alan Curbishley sem knattspyrnustóri ekki í hættu,“ segir í yfirlýsingunni.

West Ham er í 10. sæti úrvalsdeildarinnar en mikil meiðsli hafa herjað á leikmannahóp liðsins, bæði fyrir tímabilið og þegar það hófst.

„Alan og hans aðstoðarmenn sem og leikmennirnir hafa gert vel og hafa náð að koma liðinu í efri helming deildarinnar þrátt fyrir meiðslavandræðin og þeir hafa fullan stuðning frá stjórninni. Stjórnin mun vinna með Alan til að tryggja að framþróunin sem við höfum náð með félagið haldi áfram,“ segir í yfirlýsingunni að auki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert