Cesc Fabregas, spænski miðjumaðurinn hjá Arsenal, kveðst aldrei hafa séð eftir því að hafa yfirgefið Barcelona, aðeins 16 ára að aldri, til að gerast leikmaður með enska liðinu.
Framkvæmdastjóri Barcelona lýsti því yfir í síðustu viku að Fabregas ætti ekki endurkvæmt á Camp Nou á meðan núverandi stjórnarmenn væru við völd í félaginu. Hann hefði kosið að yfirgefa það og það kæmi ekki til greina að fá hann þangað aftur.
„Ég veit ekki hvort ég eigi eftir að fara aftur til Barcelona, enda líður mér afar vel þar sem ég er. Ég er stöðugt að læra og er í réttu liði til að taka framförum - með frábæran þjálfara og góða samherja.
Wenger er besti þjálfari sem ég hef kynnst og eftir því sem ég er lengur hjá honum, því meira læri ég. Ég veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér en ég er ánægður með mitt hlutskipti. Hver og einn velur sína lífsleið, ég tók mína ákvörðun og get ekki kvartað. Ég veit ekkert um hvernig mín mál hefðu þróast hjá Barcelona og vil ekki hugsa frekar um það," sagði Fabregas í samtali við katalónska sjónvarpsstöð í gær.