Cardiff City, sem er komið í undanúrslit ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu, á ekki möguleika á að fá sæti í UEFA-bikarnum á næsta keppnistímabili, jafnvel þótt liðið stæði uppi sem bikarmeistari.
Cardiff, sem er í fjórtánda sæti ensku 1. deildarinnar og vann Middlesbrough á útivelli í átta liða úrslitunum um helgina, 2:0, er ekki enskt lið, heldur kemur það frá Wales. Cardiff hefur hinsvegar frá fornu fari leikið í ensku deildakeppninni og tekið þátt í bikarkeppninni, og vann hana m.a.s. einu sinni, árið 1927.
En þar sem félagið er frá Wales og tilheyrir knattspyrnusambandinu þar í landi getur það ekki farið í Evrópukeppni sem fulltrúi Englands. Fari svo að Cardiff verði bikarmeistari fellur Evrópusætið í skaut liðsins sem myndi bíða lægri hlut í úrslitaleiknum gegn Walesbúunum.