David James, hinn 37 ára gamli markvörður Portsmouth og enska landsliðsins í knattspyrnu, er langt frá því að vera að íhuga að leggja hanskana á hilluna. Hann hefur nú framlengt samning sinn við félagið til sumarsins 2010.
James leikur nú sitt annað tímabil með Portsmouth en hann kom þangað frá Manchester City. James hefur spilað samfleytt í úrvalsdeildinni frá stofnun hennar árið 1992, lengst með Liverpool en einnig með Aston Villa.
Hann hefur leikið 36 landsleiki fyrir England undanfarin 11 ár og Fabio Capello, nýr landsliðsþjálfari, valdi hann í byrjunarlið sitt fyrir leikinn gegn Sviss í síðasta mánuði. James hefur í vetur átt eitt sitt besta tímabil á ferlinum og á drjúgan þátt í að liðið skuli vera komið í undanúrslit bikarkeppninnar.