Forráðamenn velska knattspyrnuliðsins Cardiff City hafa staðfest að Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, hafi haft samband við þá útaf Aaron Ramsey, bráðefnilegum miðjumanni liðsins.
Ramsey er 17 ára gamall og lék stórt hlutverk í liði Cardiff um síðustu helgi þegar það vann óvæntan útisigur á Middlesbrough, 2:0, í átta liða úrslitum ensku bikarkeppninnar.
Everton, Arsenal og Newcastle eru einnig sögð hafa mikinn áhuga á hinum unga Ramsey sem er metinn á 5 milljónir punda.
Ramsey hefur verið í röðum Cardiff frá átta ára aldri. Síðasta vetur varð hann yngsti leikmaðurinn í sögu félagsins til að spila með aðalliðinu, 16 ára og 124 gamall, og sló met sem hinn gamalkunni John Toshack hafði átt í rúma fjóra áratugi.
Ramsey var fyrirliði velska drengjalandsliðsins á síðasta ári og varð jafnframt einn af yngstu knattspyrnumönnum þjóðarinnar til að spila með 21-árs landsliðinu en þar á hann nú þegar 6 landsleiki að baki.