Forráðamenn Arsenal og Liverpool fóru ekki leynt með að þeir hefðu viljað aðra mótherja í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu, eftir dráttinn í dag. Þetta þýðir að liðin mætast þrisvar á aðeins sex dögum, 2. og 8. apríl í Meistaradeildinni og 5. apríl í úrvalsdeildinni.
Tveir fyrri leikirnir verða á Emirates-leikvanginum í London, heimavelli Arsenal, en sá þriðji á Anfield, heimavelli Liverpool.
„Við vonuðust eftir því að sleppa við enska mótherja, en það var svo sem viðbúið að tvö ensku liðanna myndu dragast saman. Við sluppum þó allavega við Tyrklandsferð. Á milli leikjanna mætast liðin í úrvalsdeildinni svo þetta verða áhugaverðar viðureignir og ekki útlit fyrir að þau komi hvort öðru á óvart í þessum leikjum. Svo gætum við líka mætt ensku liði, Chelsea, í undanúrslitunum," sagði Rick Parry, framkvæmdastjóri Liverpool, við BBC að drættinum loknum.
„Við hefðum frekar viljað erlenda andstæðinga. Liverpool er frábært lið sem hefur staðið sig sérstaklega vel í þessari keppni. Þrír leikir á einni viku þýða að liðin munu grandskoða leikaðferðir hvors annars. Þetta ætti að vera skemmtilegt fyrir áhorfendur og eftir leikina við AC Milan ættum við að hafa trú á því að geta farið alla leið í þessari keppni," sagði Keith Edelman, stjórnarmaður Arsenal.