Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United hrósaði Cristiano Ronaldo eftir 1:0 sigur sinna manna gegn Derby á Pride Park í dag. Meistararnir áttu í töluverðum basli með botnliðið en Ronaldo kom United til bjargar enn einu sinni með því að skora sigurmarkið stundarfjórðungi fyrir leikslok.
„Á fyrstu 20 mínútunum hefðum við getað skorað fjögur til fimm mörk og ef við hefðum náð að skora á þessum kafla þá hefði þetta orðið mun auðveldara. Ég verð að hrósa Derby fyrir góða baráttu. Lið þeirra lék mjög vel, einkum í seinni hálfleik og það gerði okkur svo sannarlega erfitt fyrir. En þetta snýst um að vinna og við verðum að þakka Ronaldo fyrir sigurinn. Hann kom okkur til bjargar. Þetta var frábært mark hjá honum því það var ekki auðvelt að taka á móti boltanum. Hann hefur svo sannarlega reynst okkur vel drengurinn. Hann er hreint magnaður,“ sagði Sir Alex Ferguson.
Manchester United tekur á móti Bolton á miðvikudaginn og getur aukið forskot sitt á toppnum en um næstu helgi er stórleikur á Old Trafford þegar Liverpool sækir Englandsmeistarana heim.