Steve Coppell: Áttum að fá vítaspyrnu

Fernando Torres í baráttu við Ívar Ingimarsson á Anfield í …
Fernando Torres í baráttu við Ívar Ingimarsson á Anfield í dag. Reuters

Steve Coppell knattspyrnustjóri Reading var ósáttur út í dómarann eftir tap sinna manna gegn Liverpool, 2:1,  á Anfield í dag. Reading komst yfir í leiknum en Javier Mascherano og Fernando Torres náðu að tryggja Liverpool sigurinn.

„Við áttum klárlega að fá vítaspyrnu þegar boltinn fór í hendina á Gerrard inni í teignum. Ég var hundfúll með dekkninguna þegar Torres skoraði sigurmarkið. Ef þú leyfir honum að leika lausum hala í teignum þá skorar hann. Við bara stóðum og horfðum á,“ sagði Coppell.

„Við þurftum að hafa fyrir þessum sigri og ég átti alveg eins von á því. Það var gaman að sjá Mascherano skora. Við höfum hvatt hann til að skjóta meira og hann tók okkur á orðinu. Þá var ánægjulegt að sjá Torres skora enn eitt markið. Hann hafði ekki mikið svigrúm í leiknum en skoraði samt,“ sagði Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert