Gianfranco Zola, ein af goðsögnum í liði Chelsea, segist eiga sér þann draum að setjast í stól knattspyrnustjóra hjá Lundúnaliðinu. Zola yfirgaf Chelsea fyrir fimm árum og lék eftir það í tvö ár með Cagliari áður en hann lagði skóna á hilluna en í dag starfar hann sem aðstoðarþjálfari U21 árs landsliðs Ítala.
„Ég er tilbúinn að koma til Chelsea og starfa fyrir félagið þegar mér finnst ég orðinn nógu góður til þess en sem stendur finnst mér ég ekki alveg tilbúinn að stýra einu af besta liði Evrópu. Chelsea er enn í hjarta mér og vonandi get ég einhvern tímann orðið knattspyrnustjóri liðsins,“ segir Zola og segist vera í góðu sambandi við Roman Abramovich eiganda Chelsea.
Zola, sem er 41 árs gamall, lék 229 leiki með Chelsea og skoraði í þeim 59 mörk og hann er í miklum metum hjá stuðningsmönnum Chelsea.