Hópur stuðningsmanna enska knattspyrnuliðsins Liverpool, sem telja sig ekki hafa lengur efni á að sækja leiki liðsins í úrvalsdeildinni, hafa stofnað nýtt félag, AFC Liverpool, og hafa sótt um inngöngu fyrir það í héraðsdeildakeppni næsta tímabils.
Svipuð félög hafa verið stofnuð útfrá Manchester United og Wimbledon, liðin FC United og AFC Wimbledon, sem bæði leika í enskum héraðsdeildum. Þau voru stofnuð í mótmælaskyni við stefnu viðkomandi félaga, FC United varð til vegna óánægju með kaup bandarísku kaupsýslumannanna á Manchester United, og AFC Wimbledon var stofnað af stuðningsmönnum Wimbledon þegar það félag var flutt úr London og gefið nafnið Milton Keynes Dons.
Alun Parry, hvatamaðurinn að stofnun AFC Liverpool, segir ekki liggi sömu hvatir að baki í þessu tilviki.
„Þetta snýst ekki um eigendur Liverpool, heldur hvort við höfum efni á að styðja liðið. Ég hef verið á Anfield síðan í lok áttunda áratugarins, þegar ég var sex ára gamall. Árið 1985 kostaði ársmiði í "The Kop" 45 pund, nú kostar hann 650 pund, sem er samt ódýrara en hjá mörgum öðrum félögum. En miðað við verðbólgu ætti verðið samt ekki að vera meira en 98 pund í dag," sagði Parry við dagblaðið The Telegraph í dag.
„Við getum ekki skellt skuldinni á Liverpool, við gerum okkur grein fyrir því að félagið á ekki annarra kosta völ en að fylgja þessu miðaverði. En það er sorglegt að fyrir vikið missa margir af því að alast upp í fótboltamenningu sem byggir á því að fara á völlinn. Meðalaldur áhorfenda í úrvalsdeildinni er 43 ár. Þegar ég fór á leik um daginn sá ég bara tvö börn á vellinum. Það er mikil synd að hátt miðaverð skuli gera unga fólkið að "sjónvarps-stuðningsmönnum", sagði Parry.
AFC Liverpool leitar að knattspyrnustjóra þessa dagana og hefur sótt um að leika í 2. deild Norðvesturhéraðanna á næsta keppnistímabili.