Enska knattspyrnusambandið hefur hafnað kröfu Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, um að að lengja keppnisbann varnarmannsins Martins Taylors í liði Birmingham. Taylor braut illa á Króatanum Eduardo da Silva, framherja Arsenal, með þeim afleiðingum að hann fótbrotnaði afar og illa og verður frá æfingum og keppni í allt að eitt ár.
Taylor lauk við að afplána þriggja leikja bannið í gær þegar Birmingham gerði jafntefli við Newcastle en leikmenn fá sjálfkrafa þriggja leikja bann fái þeir beint rautt spjald eins og Taylor fékk fyrir tæklingu á Da Silva.
Marcel Matiher formaður aganefndar FIFA sagði eftir að hafa skoðað atvikið að enska knattspyrnusambandið ætti að endurskoða bannið en forkólfar enska knattspyrnusambandið segja ekki koma til greina að gera það og heldur ekki gera breytingar á agareglum á miðju tímabili.
Sepp Blatter forseti FIFA sagði á dögunum að hættulegum tæklingum yrði að útrýma í knattspyrnunni og vel kæmi til greina að refsa brotamönnum með ævilöngu keppnisbanni.