Englandsmeistarar Manchester United geta náð þriggja stiga forskoti á toppi ensku úrvalsdeildarinnar takist liðinu að leggja Bolton að velli á Old Trafford í kvöld. Þá sækir Chelsea lið Tottenham heim á White Hart Lane og takist Chelsea að sigra nær það Arsenal að stigum. Það gæti farið svo eftir leiki kvöldsins að Manchester United, Arsenal og Chelsea verði öll með 67 stig þegar átta umferðum er ólokið.
Manchester United tapaði fyrir Bolton á Reebok fyrr á leiktíðinni, 1:0, þar sem Nicoals Anelka skoraði sigurmarkið en Anelka er sem kunnugt er farinn frá Bolton og er genginn í raðir Chelsea.
Reiknað er með að Ben Foster standi áfram á milli stanganna hjá United. Edwin van der Sar hefur ekki jafnað sig af nárameiðslum og þar sem Foster átti fínan leik gegn Derby um síðustu helgi mun Sir Alex Ferguson væntanlega velja Foster umfram Tomasz Kuszczak sem hefur lokið við að afplána leikbann.
„Við verðum að taka þrjú stig en við berum virðingu fyrir mótherjunum. Auðvitað saknar Bolton Nicolas Anelka en liðið hefur Kevin Davies sem er erfiður við að eiga en ég vænti þess að Vidic og Ferdinand hafi bæði styrk og getu til að halda aftur af honum,“ segir Ferguson.
Grétar Rafn Steinsson og Heiðar Helguson eru báðir í 20 manna hópi Bolton en þar er tvísýnt hvort Gary Cahill og fyrirliðinn Kevin Nolan verði leikfærir.
Tottenham - Chelsea
Chelsea hyggur á hefndir gegn grönnum sínum í Tottenham, sem höfðu betur í úrslitaleik liðanna í deildabikarnum fyrir skömmu. Chelsea hefur ekki tapað í síðustu 12 leikjum sínum en liðið lá síðast fyrir Arsenal um miðjan desember. Gengi Tottenham hefur verið upp og niður og liðið er í 11. sæti deildarinnar, átta stigum á eftir West Ham.