Knattspyrnustjórar Manchester United og Bolton, Alex Ferguson og Gary Megson, ræddu mikið um Cristiano Ronaldo eftir leik liðanna á Old Trafford í kvöld. Sérstaklega aukaspyrnuna, sem hann skoraði úr síðara mark sitt og United í leiknum, 2:0.
„Þetta var snilldarverk frá leikmanni sem er líklega sá besti í heiminum um þessar mundir. Í búningsklefa okkar eftir leikinn töluðu allir um aukaspyrnuna og hvernig í ósköpunum hann færi að þessu. Nú höfum við séð hann gera þetta tvívegis og sannleikurinn er sá að við botnum ekkert í hvernig hann fer að þessu," sagði Gary Megson.
Ronaldo hefur komið fram með nýja tækni í aukaspyrnum þar sem hann nær að láta boltann "detta" ótrúlega hratt eftir að hafa skotið þéttingsfast yfir varnarvegg mótherjanna.
„Aukaspyrnan hans var stórkostleg. Hann æfir þetta stíft og er búinn að þróa þessa tækni. Markametið hans er magnað og segir allt um þennan leikmann, það er með ólíkindum að hann skuli vera búinn að skora öll þessi mörk úr þessari stöðu," sagði Ferguson en Ronaldo er nú búinn að gera 33 mörk í vetur, einu meira en annar frægasti kantmaður félagsins, George Best, náði að gera á einu tímabili fyrir Manchester United á sínum tíma.