Ashley Cole, enski landsliðsmaðurinn í knattspyrnu sem leikur með Chelsea, sendi frá sér tvöfalda afsökunarbeiðni í dag, bæði til Alans Huttons, leikmanns Tottenham og til Mikes Rileys sem dæmdi leik liðanna á White Hart Lane í gærkvöld.
Cole braut illa á Hutton í leiknum og leikmenn Tottenham voru æfir yfir því að Riley skyldi aðeins sýna honum gula spjaldið að launum. Cole sýndi jafnframt á látbragði sínu við Riley að hann væri ósáttur við að vera yfirleitt spjaldaður fyrir brotið.
„Ég vil biðja alla viðkomandi afsökunar og að sjálfsögðu Alan Hutton fyrir að brjóta svona á honum. Ég ætlaði ekki að fara svona í tæklinguna, ég fór hátt með fótinn en gerði það til að ná boltanum. Hann var hinsvegar fljótari en ég gerði ráð fyrir. Þetta var ekki ásetningur og ég er dálítið sár yfir fullyrðingum í þá átt. Auðvitað var þetta slæmt brot en í hita augnabliksins leggur maður sig allan fram um að vinna leikinn og vinna hvert návígi. Ég bið Alan afsökunar en ég ætlaði ekki að meiða hann," sagði Cole, eftir að hafa skoðað myndband af atvikinu. Hann kvaðst heldur ekki hafa ætlað að sýna Riley lítilsvirðingu.
„Ég er tilfinningavera og er stundum ör inni á vellinum, en það var ekki ætlun mín að gera lítið úr hans starfi. Ég veit að þetta er ljóður á ráði mínu og ég ætla mér að ná betri stjórn á því," sagði Cole við Chelsea TV, sjónvarpsstöð Chelsea.
Leikur liðanna endaði 4:4 og þótti einn sá skemmtilegasti í úrvalsdeildinni í vetur.