Tottenham sigraði Hermann Hreiðarsson og félaga í Portsmouth, 2:0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Darren Bent og Jamie O'Hara skoruðu mörkin með 90 sekúndna millibili seint í leiknum.
Portsmouth er áfram í 6. sæti deildarinnar með 50 stig og Tottenham er áfram í 11. sæti en nú með 39 stig. Hermann lék allan leikinn í stöðu miðvarðar.
Paul Robinson kom í veg fyrir að Portsmouth næði forystunni á 16. mínútu þegar hann varði lúmskt skot frá Sean Davis á glæsilegan hátt. Dimitar Berbatov skoraði fyrir Tottenham á 28. mínútu en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Michael Dawson átti þrumuskot á mark Portsmouth á 31. mínútu en David James varði í þverslána og út.
Litlu munaði að Portsmouth kæmist yfir á 76. mínútu. Nwankwo Kanu fékk langa sendingu innfyrir vörn Tottenham, skallaði boltann yfir úthlaupandi Paul Robinson markvörð, en Didier Zokora náði að bjarga á marklínu.
Tottenham náði forystunni á 80. mínútu þegar Darren Bent skoraði með skalla af markteig eftir þunga sókn að marki Portsmouth, 1:0.
Bent var nýkominn inná sem varamaður og hann lagði upp annað mark 90 sekúndum síðar, lék þá á Hermann Hreiðarsson, fyrrum samherja sinn hjá Charlton, vinstra megin í vítateignum og renndi boltanum út á Jamie O'Hara sem skoraði af markteig, 2:0.
Fyrir leik:
Sterkir leikmenn voru fjarri góðu gamni hjá Portsmouth en Sol Campbell er meiddur og þeir Sulley Muntari og Papa Bouba Diop eru báðir komnir í tveggja leikja bann. Jermain Defoe mátti ekki spila gegn sínum gömlu félögum í Tottenham þar sem um lánssamning var að ræða til að byrja með þegar hann fór yfir til Portsmouth í lok janúar.
Lið Tottenham: Robinson - Hutton, Dawson, Woodgate, Chimbonda - Lennon, Zokora, Huddlestone, Malbranque - Berbatov, Keane.
Varamenn: Cerny, Kaboul, Tainio, Bent, O'Hara.
Lið Portsmouth: James - Johnson, Distin, Hermann, Aubey - Utaka, Mendes, Davis, Hughes, Kranjcar - Kanu.
Varamenn: Ashdown, Baros, Nugent, Mvuemba, Wilson.