Alan Curbishley, knattspyrnustjóri Íslendingafélagsins West Ham, var ánægður með stigið sem liðið náði gegn Everton á útivelli í dag, sem og frammistöðu tveggja ungra stráka sem eru uppaldir hjá West Ham.
Um síðustu helgi fékk Freddie Sears, 18 ára piltur, sitt fyrsta tækifæri með aðalliði West Ham og skoraði í góðum sigri á Blackburn, 2:1. Í dag kom jafnaldri hans úr unglingaliðinu, James Tomkins, inní byrjunarliðið sem miðvörður í staðinn fyrir Matthew Upson, og var hársbreidd frá því að skora á upphafsmínútunum þegar hann átti skalla í þverslá. Sears kom inná í seinni hálfleik og átti stangarskot einni mínútu fyrir leikslok.
„Það er búið að skrifa mikið um slæmt gengi okkar í síðustu leikjum og ég átti von á hverju sem er eftir að við lentum undir strax á 8. mínútu. En við gáfum í og komum okkur aftur inní leikinn. Spilið fór að ganga og við sköpuðum okkur marktækifæri í seinni hálfleiknum. Það vantaði bara herslumuninn að ná í öll þrjú stigin," sagði Curbishley við netmiðilinn Setanta Sports.
„Við vorum pínulítið vonsviknir eftir leikinn því við fengum góð færi. Freddie hinn ungi kom inná og gerði varnarmönnum þeirra lífið leitt. Tomkins átti stórfínan leik og lét ekki á sig fá þó kenna mætti honum um markið sem Everton skoraði. Hann og Anton Ferdinand léku mjög vel saman í vörninni, tveir leikmenn sem eru uppaldir hjá félaginu, sem er frábært. Þegar upp er staðið getum við verið nokkuð ánægðir með stigið. Ég sagði að ég ætti eftir að gefa nokkrum ungum leikmönnum tækifæri og horfa til framtíðar, og við munum halda því áfram í leikjunum sem eftir eru," sagði Curbishley.