Benítez: Óskiljanlegt rautt spjald

Steve Bennett sýnir Javier Mascherano rauða spjaldið og Fabio Aurelio …
Steve Bennett sýnir Javier Mascherano rauða spjaldið og Fabio Aurelio reynir að halda aftur af Argentínumanninum. Reuters

Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool sagði að Steve Bennett dómari hefði gjörbreytt gangi leiksins gegn Manchester United með því að reka Javier Mascherano af velli að ástæðulausu í lok fyrri hálfleiks.

Mascherano fékk gula spjaldið fyrir brot snemma leiks og þegar hann mótmælti spjaldi sem Fernando Torres fékk, vegna mótmæla, sýndi Bennett honum tafarlaust rauða spjaldið. Tíu leikmenn Liverpool urðu að játa sig sigraða, 3:0, þegar upp var staðið.

„Þetta voru tveir ólíkir leikir, fyrir rauða spjaldið og eftir það. Við fengum okkar tækifæri, hornspyrnur og hættulegar skyndisóknir. Við fengum á okkur mark, en eftir brottvísunina var þetta allt annar leikur," sagði Benítez við BBC eftir leikinn.

„Það skildi enginn hvers vegna hann fór með rauða spjaldið á loft því leikmaðurinn spurði einfaldlega hvað hefði gerst, og fékk fyrir það gula spjaldið í annað sinn. Leikmaðurinn var steinhissa, það vita allir hve yfirvegaður hann er og heiðarlegur, og hann spurði okkur hversvegna þetta hefði gerst.

Ryan Babel var á staðnum og heyrði orðaskiptin - þetta var með ólíkindum. Það vita allir hve vinnusamur og duglegur leikmaður Mascherano er. En hann gat engan veginn skilið að í svona miklum og mikilvægum leik skyldi hann  vera rekinn af velli, bara fyrir að spyrja.  Ég mun ekki ræða þetta við dómarann því ég á ekki von á svari," sagði Benítez og kvaðst ekki vilja ræða frekar um dómgæsluna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert