Grant: Drogba er að ná sér á strik

Didier Drogba var Chelsea dýrmætur í dag.
Didier Drogba var Chelsea dýrmætur í dag. Reuters

Avram Grant, knattspyrnustjóri Chelsea, sagði að framherjinn öflugi frá Fílabeinsströndinni, Didier Drogba, væri að komast í sitt gamla form á ný og hann hefði sýnt það gegn Arsenal í dag. Drogba tryggði Chelsea þá dýrmætan sigur, 2:1, með tveimur mörkum.

„Didier var ekki upp á sitt besta þegar hann koma aftur eftir Afríkukeppnina, en hann sýndi batamerki í leiknum við Tottenham í síðustu viku og í dag átti hann mjög góðan leik. Við spiluðum vel gegn mjög góðum mótherjum, sérstaklega í seinni hálfleiknum. Það verður ekki auðvelt að ná meistaratitlinum en við eigum enn möguleika. Okkar hlutverk er enn að elta en nú höfum við nálgast toppinn," sagði Grant.

Chelsea er nú ósigrað í fjórtán leikjum í röð í úrvalsdeildinni og er komið í annað sætið í fyrsta skipti, fimm stigum á eftir Manchester United sem vann Liverpool, 3:0, í fyrri stórleik dagsins. Sjö umferðum er ólokið í úrvalsdeildinni. 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert