West Ham stefnir á 50 þúsundin

Upton Park verður ekki lengi enn heimavöllur West Ham ef …
Upton Park verður ekki lengi enn heimavöllur West Ham ef áætlanir ganga eftir. Reuters

Scott Duxbury, framkvæmdastjóri Íslendingafélagsins West Ham, segir að félagið hafi aðeins dregið úr áformum sínum varðandi nýjan heimavöll. Nú sé stefnt að því að byggja völl sem rúmi 50 þúsund áhorfendur en ekki 60 þúsund.

Upphaflega voru áætlanir um að byggja samskonar völl og Arsenal gerði, Emirates Stadium, en Duxbury sagði við netmiðilinn Setanta Sports að það hefði verið endurskoðað. Núverandi heimavöllur West Ham, Upton Park, rúmar 35.300 manns í sæti.

„Sem stendur erum við að horfa til 50 þúsund manna leikvangs, með möguleikum á að stækka hann síðar meir þannig að hann rúmi 60 þúsund áhorfendur. Það er ekki vegna þess að við teljum okkur ekki geta fyllt 60 þúsund manna völl, en það sem við viljum alls ekki sjá er auð sæti á heimaleikjum okkar. Við erum sannfærðir um um að við munum fá 50 þúsund manns á okkar heimaleiki.

Við erum enn í samningum og þegar milljónir punda eru í húfi tekur það sinn tíma. Það eru enn nokkrar hindranir sem við eigum eftir að yfirstíga. Það er ekki byrjað að hanna völlinn en þó liggur fyrir að hönnuðirnir verða þeir sömu og teiknuðu heimavöll Reading," sagði Duxbury, og hjá honum kom jafnframt fram að áætlanir West Ham um nýtt æfingasvæði væru lengra komnar.

„Það er nær því að verða að veruleika en leikvangurinn sjálfur en við reiknum þó ekki með að ljúka samningum um það fyrr en í september. Svæðið er í nágrenni Chadwell Heath, vellirnir sjálfir eru þegar til staðar og við getum flutt þegar vallarhúsið hefur verið byggt," sagði Scott Duxbury, sem er hægri hönd þeirra Björgólfs Guðmundssonar eiganda West Ham og stjórnarformanns og Ásgeirs Friðgeirssonar, varaformanns félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert