David Beckham varð að sætta sig við tap í 100. leik sínum með enska landsliðinu gegn sterku liði Frakka í kvöld. Beckham, sem nældi sér í gult spjald og var tekinn af velli á 63. mínútu leiksins, vonast til að spila fleiri leiki fyrir England sem tapaði fyrsta leiknum undir stjórn Fabio Capello.
„Ég er mjög stoltur,“ sagði Beckham við Sky Sports eftir leikinn. Frá því ég byrjaði að leika með enska landsliðinu þá dreymdi mig aldrei að ég myndi ná að spila 100 leiki með því. Ég er ánægður en eins og sagði í aðdraganda leiksins þá vil ég halda áfram að spila fyrir mína þjóð,“ sagði Beckham.
Fabio Capello landsliðsþjálfari Englendinga var nokkuð sáttur við leik sinna manna þrátt fyrir tapið.
„Ég var nokkuð ánægður með leik liðsins og ég merki framfarir. Við lékum gegn toppliði hér í kvöld og mér fannst liðið gera vel. Ég var sérlega ánægður með fyrri hálfleikinn en því miður fengum við á okkur mark úr vítaspyrnu,“ sagði Capello eftir leikinn. Um vítið sem dæmt var á David James markvörð sagði Ítalinn; Ég sá atvikið ekki nægilega vel en ég held ekki að hann hefði getað gert betur.“