Arsenal verður án franska bakvarðarins Bacary Sagna í það minnsta næstu þrjár vikurnar að sögn Arséne Wengers knattspyrnustjóra Arsenal. Sagna meiddist í leik Arsenal og Chelsea um síðustu helgi eftir að hafa komið sínum mönnum yfir í leiknum sem Arsenal tapaði, 2:1.
Sagna kemur til með að missa af næstu fimm leikjum Arsenal en liðið sækir Bolton heim í úrvalsdeildinni á laugaraginn, mætir síðan Liverpool í þremur leikjum, þar af tveimur í Meistaradeildinni, og sækir síðan Englandsmeistara Manchester United heim þann 13. apríl.
„Við vitum ekki alveg hversu lengi hann verður frá en ég tel líklegt að hann verði frá keppni næstu þrjár vikurnar en í versta falli,“ segir Wenger á vef Arsenal.
Þetta er mikil blóðtaka fyrir Arsenal enda hefur Sagna leikið sérlega vel í hægri bakvarðarstöðunni en Arsenal fékk hann í sínar raðir frá franska liðinu Auxerre síðastliðið sumar.