Fletcher úr leik í sex vikur

Darren Fletcher verður varla meira með Man. Utd á þessu …
Darren Fletcher verður varla meira með Man. Utd á þessu tímabili. Reuters

Útlit er fyrir að skoski miðjumaðurinn Darren Fletcher leiki ekki meira með Manchester United á þessu keppnistímabili. Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Man. Utd, staðfesti í dag að Fletcher hefði meiðst á hné í leik Skota og Króata á miðvikudag og yrði frá keppni í sex vikur.

Ferguson er því enn óhressari en áður með vináttulandsleikina sem hann hefur fundið allt til foráttu. „Fyrir mér undirstrikar þetta enn frekar tilgangsleysi vináttulandsleikjanna," sagði Ferguson við Sky Sports í dag.

„Hann var að jafna sig af slæmu lungnakvefi þegar hann fór í landsleikinn og hafði misst af leiknum við Liverpool um síðustu helgi vegna þess. Hann hefði aldrei átt að spila í meira en 45-60 míútur en hann lék allan leikinn og meiddist á síðustu mínútunni. Þetta er mikið áfall fyrir okkur," sagði Ferguson.

Fletcher hefur aðeins verið í byrjunarliði Man. Utd í fjórum leikjum í vetur en Ferguson hefur oft ítrekað að hann sé mikilvægur hlekkur í sínum leikmannahópi.

Sjö umferðir eru eftir af ensku úrvalsdeildinni en Manchester United er auk þess komið í átta liða úrslitin í Meistaradeild Evrópu. Lokaumferð úrvalsdeildarinnar er leikin 11. maí, eftir sex vikur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka