Forráðamenn Liverpool ákváðu í dag að sekta Argentínumanninn Javier Mascherano eftir að hann hafði fallist á kæru enska knattspyrnusambandsins vegna ósæmilegar hegðunar í leik Manchester United og Liverpool um síðustu helgi. Sektin nemur tveggja vikna launum Mascherano hjá Liverpool og er talið að hún sé um 100.000 pund sem jafngildir 15,5 milljónum króna.
Mascherano hefur beðið alla hjá Liverpool afsökunar á framferði sínu og hefur óskað eftir því að sektargreiðslan renni til góðgerðamála en hann hefur óskað eftir því að koma fyrir aganefndina og skýra út sitt mál fyrir henni í næstu viku.
„Javier er frábær atvinnumaður og hann veit að honum urðu á stór mistök. Hann hefur beðið félaga sína í liðinu afsökunar sem og stuðningsmenn félagsins og þá hefur hann beðið dómarann afsökunar. Ég hef rætt við hann og tjáð honum að hann verði sektaður og hann tók því vel og vill að peningarnir renni til góðgerðamála,“ sagði Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool.