Arséne Wenger knattspyrnustjóri Arsenal gefur það í skyn á vef félagsins að hann kunni að hvíla framherjann Emmanuel Adebyor í leik liðsins gegn Bolton á Reebok á morgun.
Tógómaðurinn hefur spilað 29 af 31 leik Arsenal í úrvalsdeildinni og hefur náð að skora 19 mörk. Í síðustu leikjum hefur mátt greina þreytumerki á Adebayor en hann hefur aðeins náð að skora eitt mark í síðustu 8 leikjum.
Eftir leikinn gegn Bolton tekur við stíft prógramm hjá Arsenal en liðið mætir Liverpool í þremur leikjum á sex dögum, tveimur í Meistaradeildinni og í deildinni þar á milli og eftir törnina gegn Liverpool sækir Arsenal Englandsmeistara Manchester United heim.
„Hann hefur gefið sig allan í leik okkar á tímabilinu og ég held að hann þurfi að fá tíma til að anda. Hann hefur spilað marga leiki einn í fremstu víglínu og eðlilega tekur það sinn toll. Því held ég að smá hvíld gerði honum bara gott,“ segir Wenger.