Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United telur að leikirnir þrír sem Arsenal etur kappi við Liverpool á sex dögum verði til þess að liðið lendi undir í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn og skoski knattspyrnustjórinn lítur á Chelsea sem sína aðalkeppinauta um titilinn í ár.
Arsenal, sem er í þriðja sæti sex stigum á eftir Manchester United sem trónir í toppsætinu, mætir Bolton á útivelli í dag, United tekur á móti Aston Villa og Chelsea leikur við Middlesbrough á morgun. Arsenal mætir síðan Liverpool í þremur leikjum í röð en deildarleikur liðanna á er á milli viðureigna þeirra í Meistaradeildinni.
„Það verður mjög erfitt fyrir Arsenal að mæta Liverpool í þremur leikjum á svona stuttum tíma og sé ekki betur en að það verði til þess að liðið missi af baráttunni um titilinn. Ég ætla að sjá fyrsta leikinn og það verður frábært að sjá þessi lið eigast við í Meistaradeildinni. Ég tel að Arsenal hafi verið svolítið óheppið að hafa gefið eftir í toppbaráttunni og þar hafa meiðsli spilað inní,“ segir Ferguson.
Ferguson á eftir að taka á móti Arsenal á Old Trafford og mæta Chelsea á Stamford Bridge en Ferguson telur að eins og horfi í dag þá sé Chelsea helsta ógn fyrir sína menn.
Lið Chelsea er feikilega sterkt og árangur liðsins á heimavelli er einstakur. Mér finnst því lið Chelsea í góðri stöðu og er það lið sem verður okkar aðalkeppinautur,“ segir Ferguson.