Óvíst er hvort enski landsliðsmaðurinn Michael Carrick geti leikið með Manchester United gegn Roma í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu annað kvöld en liðin mætast þá í Rómarborg. Það er fyrri viðureign liðanna í átta liða úrslitum keppninnar.
Carrick meiddist í leiknum við Aston Villa á laugardaginn og gat ekki æft í gær. Reiknað er með að það skýrist ekki fyrr en á síðustu stundu á morgun hvort hann verði leikfær.
Þeir Edwin van der Sar, Ryan Giggs og Patrice Evra gátu hinsvegar allir æft á fullu með United í Róm í dag en þeir voru einnig tæpir eftir leikinn gegn Villa.
Þá heldur Gary Neville áfram að vinna sig í átt að liði Manchester United en hann spilaði í kvöld heilan leik með varaliði félagsins þegar það gerði jafntefli, 1:1, við Newcastle.