Tyrkneska liðið Fenerbache kom nokkuð á óvart í kvöld með því að sigra Chelsea, 2:1, í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í Istanbúl.
Chelsea náði forystunni á 13. mínútu þegar De Souza Deivid, miðjumaður Fenerbache, sendi boltann í eigið mark eftir að Florent Malouda átti sendingu fyrir markið frá vinstri.
Colin Kazim-Richards jafnaði fyrir Fenerbache á 64. mínútu, 1:1, með skoti frá vítateig eftir sendingu frá Mehmet Aurelio. Kazim-Richards, sem lék með Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni í fyrra, kom inná sem varamaður á 54. mínútu.
Fenerbache komst yfir, 2:1, á 80. mínútu þegar Deivid skoraði með hörkuskoti af 25 metra færi og það reyndist sigurmarkið.
Liðin mætast aftur á Stamford Bridge í London næsta þriðjudagskvöld.
Fenerbache: Demirel - Turaci, Lugano, Edu Dracena, Wederson - Maldonado, Aurelio, Boral, Deivid - Alex, Kezman.
Varamenn: Kulbilge, Cakmak, Aslan, Kazim-Richards, Bilgin, Sahin, Senturk.
Chelsea: Cudicini - Essien, Carvalho, Terry, A. Cole - Malouda, Makelele, Lampard, Ballack, J. Cole - Drogba.
Varamenn: Hilario, Obi, Ferreira, Kalou, Wright-Phillips, Alex, Anelka.