Fyrri rimmunum í 8 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu lýkur í kvöld með tveimur leikjum. Á Emirates Stadium tekur Arsenal á móti Liverpool í fyrsta leik liðanna af þremur á næstu sex dögum og í Istanbul í Tyrklandi verður forvitnilegur slagur þegar Fenerbache fær Chelsea í heimsókn. Það ríkir mikil spenna á Englandi fyrir fyrstu orrustu Arsenal og Liverpool en þannig háttar til að liðin mætast í úrvalsdeildinni á milli Evrópuleikjanna um næstu helgi og því etja liðin kappi í þrígang á sex næstu dögum.
Spánverjinn Cesc Fabregas, miðjumaðurinn snjalli hjá Arsenal, lítur svo á að Arsenal berjist fyrir því að bjarga tímabilinu með leikjunum þremur gegn Liverpool en Lundúnaliðið hefur ekki gefist upp í baráttunni við Manchester United og Chelsea um Englandsmeistaratitilinn.
,,Sigurinn á móti Bolton um síðustu helgi var gott veganesti og með honum höfum við vonandi endurheimt sjálfstraustið. Við finnum eðlilega fyrir því að pressan er mikil fyrir leikina á móti Liverpool en það hvetur mig bara áfram og hjálpar mér að ná betri einbeitingu og spila vel, eins og þegar ég skoraði á móti AC Milan á San Síró. Mig dreymir um að komast í úrslitaleikinn,“ segir Fabregas en hann lék með Arsenal til úrslita gegn Barcelona fyrir tveimur árum þar sem Börsungar höfðu betur.
,,Við erum með gott lið á evrópskan mælikvarða og við höfum mikið sjálfstraust í Meistaradeildinni hver sem mótherjinn er sem við eigum við. Við höfum sýnt og sannað undanfarin ár að við erum með eitt besta liðið í Meistaradeildinni, við höfum ekkert að óttast heldur þvert á móti; við finnum fyrir því að liðin óttast okkur. Við gerum okkur grein fyrir því að leikirnir við Arsenal verða gífurlega erfiðir en við mætum til leiks fullir sjálfstrausts og erum bjartsýnir,“ segir Gerrard en hann lyfti Evrópubikarnum á loft í Istanbul í Tyrklandi fyrir þremur árum en á síðustu leiktíð tapaði Liverpool fyrir AC Milan í úrslitaleik.
,,Fyrsti leikurinn á Emirates verður án efa mjög erfiður. Það þýðingarmesta fyrir okkur er að ná að skora og ef okkur tekst það þá verðum við í góðum málum fyrir leikinn á Anfield. En Arsenal er afar gott lið sem verður erfitt að leggja að velli,“ segir Torres.
Arsene Wenger segist óttast Torres mest allra leikmanna Liverpool. ,,Hann er gríðarlega hættulegur leikmaður sem verðum að hafa góðar gætur á,“ segir Wenger.
,,Við erum vanir því að spila á móti Liverpool og eigum að vera vel undirbúnir,“ segir Kolo Toure, varnarmaðurinn sterki hjá Arsenal, en liðin áttust við fjórum sinnum á síðustu leiktíð þar sem Arsenal sló Liverpool út bæði í ensku bikarkeppninni og deildabikarnum. ,,Þetta verður spennandi einvígi en við höfum styrk og getu til að slá Liverpool út eins og við gerðum í fyrra,“ segir Toure.
Nicolas Anelka hefur varað sína menn við erfiðum leik gegn Fenerbache en Frakkinn þekkir vel til hjá liðinu því hann lék með því eitt tímabil áður en hann gekk til liðs við Bolton. Anelka segir að andrúmsloftið á Sukru Saracoglu-leikvangnum í Istanbul verði rafmagnað og liðsmenn Chelsea fái ekki góðar viðtökur hjá tyrknesku áhorfendunum.
,,Það á allt eftir að verða vitlaust inni á vellinum. Við verðum að vera varkárir því Fenerbache spilar góðan fótbolta og hefur marga snjalla leikmenn í sínum röðum,“ segir Anelka. ,,Ég er ekki hissa á því hversu langt liðið er komið í Meistaradeildinni því ég var hérna fyrir tveimur árum og þá vorum við óheppnir að komast ekki upp úr riðlinum,“ segir Anelka.