Kuyt: Þurfum mjög góðan leik

Dirk Kuyt, til hægri, í baráttu við Mathieu Flamini í …
Dirk Kuyt, til hægri, í baráttu við Mathieu Flamini í leiknum í kvöld. Reuters

Hollendingurinn Dirk Kuyt, sem skoraði mark Liverpool gegn Arsenal í Meistaradeild Evrópu í kvöld, segir að lið sitt þurfi mjög góðan leik á sínum heimavelli til að slá Arsenal út og komast í undanúrslitin.

Úrslitin í kvöld, 1:1, þýða að Liverpool nægir markalaust jafntefli í seinni leiknum á Anfield á þriðjudagskvöldið kemur en Kuyt segir að það verkefni verði mjög erfitt.

„Markið í kvöld var gífurlega dýrmætt, sérstaklega vegna þess hve vel Arsenal spilaði. Við gerðum allt sem við gátum, stefndum að því að skora mark og það tókst. Við náðum að jafna strax eftir að þeir náðu forystunni og áttum nokkur  tækifæri í viðbót eftir hornspyrnur. Það hefði þurft talsverða heppni til að skora annað mark en Arsenal lék virkilega vel. Þeir eru með frábært lið en seinni leikurinn er á Anfield og við höfum sýnt að þar getum við ýmislegt. Allir vita hvernig Evrópuleikir á Anfield eru, og hvað við höfum gert í þeim á undanförnum árum. Vonandi leikum við sama leik í næstu viku og komumst í undanúrslitin," sagði Kuyt á vef Liverpool.

Hann hefði getað fengið á sig vítaspyrnu í seinni hálfleiknum þegar Aliaksandr Hleb féll í návígi þeirra í vítateig Liverpool. „Það var rétt ákvörðun hjá dómarnum að dæma ekki vítaspyrnu. Ég togaði ekki í treyjuna hans svo þetta var ekki víti, þó það munaði litlu," sagði Kuyt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert