Hermann og félagar í úrslitaleikinn á Wembley

Nwankwo Kanu kom Portsmouth yfir og hefur hér betur í …
Nwankwo Kanu kom Portsmouth yfir og hefur hér betur í baráttu við Zoltán Gera, miðjumann WBA. Reuters

Eyjapeyinn Hermann Hreiðarsson og félagar hans í Portsmouth eru komnir í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu eftir sigur á WBA, 1:0, í undanúrslitum keppninnar á Wembley í London í dag. Nwankwo Kanu skoraði sigurmarkið.

Portsmouth leikur þar við annaðhvort Cardiff eða Barnsley sem mætast í seinni undanúrslitaleiknum á Wembley á morgun.

Portsmouth var mun meira með boltann í fyrri hálfleik en WBA fékk samt nokkur hálffæri og raunar þurfti David James einu sinni að taka á honum stóra sínum til að verja.

Portsmouth náði forystunni á 54. mínútu með marki frá Nwankwo Kanu, 1:0. Milan Baros skaut á mark WBA frá vítateig, Dean Kiely markvörður varði en Kanu fylgdi á eftir og skoraði.

Milan Baros fékk dauðafæri til að koma Portsmouth tveimur mörkum yfir á 66. mínútu þegar hann komst innfyrir vörn WBA eftir sendingu frá Niko Kranjcar en Kiely varði vel í horn.

Litlu munaði að WBA jafnaði metin á 74. mínútu þegar Robert Koren átti hörkuskot rétt utan vítateigs en í þverslána á marki Portsmouth og yfir.

David Nugent hjá Portsmouth fékk dauðafæri á 84. mínútu eftir varnarmistök WBA en Kiely varði vel frá honum. WBA fór beint í sókn og Ishmael Miller fékk gott færi í miðjum vítateig Portsmouth en skaut hárfínt framhjá.

Lið Portsmouth: David James - Glen Johnson, Sol Campbell, Sylvain Distin, Hermann Hreiðarsson - Sulley Muntari, Papa Bouba Diop, Lassana Diarra, Niko Kranjcar - Nwankwo Kanu (Sean Davis 81.), Milan Baros (David Nugent 71.)

Lið WBA: Dean Kiely - Carl Hoefkens, Martin Albrechtsen, Neil Clement, Paul Robinson - James Morrison (Chris Brunt 60.), Robert Koren, Zoltán Gera (Do-heon Kim 75.), Jonathan Greening - Roman Bednar (Ishmael Miller 60.), Kevin Phillips.

Hermann Hreiðarsson er með í dag.
Hermann Hreiðarsson er með í dag. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert