Það verður Cardiff sem mætir Hermanni Hreiðarssyni og félögum í Portsmouth í úrslitum enska bikarsins. Cardiff lagði lið Barnsley að velli með einu marki gegn engu á Wembley í dag.
Joe Ledley kom Cardiff yfir á 8. mínútu, 1:0, með fallegu skoti frá vítateig og það reyndist nægja til sigurs.
Kayode Odejayi, hetja Barnsley í sigurleiknum gegn Chelsea í 8-liða úrslitunum, fékk gullið færi á 66. mínútu til að jafna metin þegar hann komst einn uppað marki Cardiff en hann skaut framhjá.
Úrslitaleikur Portsmouth og Cardiff fer fram á Wembley-leikvanginum í London laugardaginn 17. maí. Portsmouth varð bikarmeistari árið 1939 og Cardiff árið 1927.