Petr Cech markvörður Chelsea verður frá keppni í tvær vikur til viðbótar en hann varð fyrir meiðslum á andliti á æfingu Lundúnaliðsins í gær. Að sögn breskra fjölmiðla í kvöld voru 50 spor saumuð í andlit Tékkans en hann hlaut skurð bæði á vör og á hökunni eftir samstuð við Ísraelann Tal Ben-Haim.
Cech hefur ekki getað verið með í síðustu níu leikjum Chelsea vegna ökklameiðsla og á síðustu leiktíð missti hann mikið úr þegar hann höfuðkúpubrotnaði.
Cech verður því ekki með gegn Fenerbache í Meistaradeildinni en Avram Grant vonast til að Tékkinn snjalli verði búinn að ná sér fyrir leikinn gegn Manchester United á Stamford þann 26. apríl en sá leikur gæti ráðið úrslitum um enska meistaratitilinn.