Rosický ekki meira með Arsenal

Tomás Rosický hefur verið frá keppni síðan í janúar.
Tomás Rosický hefur verið frá keppni síðan í janúar. Reuters

Tékkneski knattspyrnumaðurinn Tomás Rosický leikur ekki meira með Arsenal á þessu keppnistímabili vegna þrálátra hnjámeiðsla, og óvíst er að hann spili með Tékkum í úrslitakeppni Evrópumótsins í Sviss og Austurríki í sumar.

Rosický meiddist í bikarleik Arsenal og Newcastle í janúar og hefur ekki spilað síðan. Læknir tékkneska landsliðsins, Petr Krejci, sagði við íþróttadagblaðið Sport í Tékklandi í dag að horfurnar væru ekki góðar.

„Það er hugsanlegt að hann gæti losnaði við meiðslin á næstu tveimur vikum en þetta gæti hæglega tekið allt að þremur mánuðum. Hann hefur ekkert getað gert í rúma tvo mánuði og staðan er því tvísýn. Hann getur hlaupið og skokkað í smátíma en um leið og hann gerir meira, er sársaukinn of mikill. Hann hefur þegar sætt sig við að spila ekki meira í úrvalsdeildinni og hefur sett í forgang að ná sér fyrir Evrópukeppnina," sagði Krejci.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert