Netútgáfa enska dagblaðsins Daily Mail segir í dag að Björgólfur Guðmundsson, stjórnarformaður og aðaleigandi West Ham, hafi fyrirskipað knattspyrnustjóranum Alan Curbishley að lækka launakostnaðinn hjá félaginu fyrir næsta tímabil.
Farið er yfir leikmannakaup sem Eggert Magnússon hafði umsjón með á meðan hann var stjórnarformaður félagsins en þá hafi háar upphæðir verið greiddar fyrir leikmenn og samið við þá um verulega góð laun. Þar sé meðal annars um að ræða Freddie Ljungberg, Craig Bellamy, Kieron Dyer, Luis Boa Morte og Matthew Upson.
Curbishley segir að mjög erfitt sé að gera áætlanir um leikmannamálin í augnablikinu vegna þess hve margir leikmenn hafi verið frá keppni vegna meiðsla í vetur. „Ég hef ekki fengið á hreint hvenær sumir þessara leikmanna verða heilir heilsu á ný svo það er er mjög erfitt að átta sig nákvæmlega á hvað við þurfum. Ég var að vonast til þess að þeir yrðu allir búnir að ná sér áður en tímabilinu lyki, en það hefur ekki gengið eftir," sagði Curbishley við Daily Mail.
Enn er möguleiki á að Craig Bellamy nái að spila með West Ham áður en tímabilið er úti en James Collins, Danny Gabbiadon, Julien Faubert, Lee Bowyer, Calum Davenport og Kieron Dyer eru allir úr leik framyfir þann tíma.
West Ham tekur á móti Portsmouth í úrvalsdeildinni á Upton Park í kvöld en Íslendingafélagið er í tíunda sæti deildarinnar, Portsmouth í því sjötta.