Cech: Þetta er ekkert alvarlegt

Petr Cech ætlar að spila aftur með Chelsea fljótlega.
Petr Cech ætlar að spila aftur með Chelsea fljótlega. Reuters

Petr Cech, markvörður Chelsea og tékkneska landsliðsins í knattspyrnu, segir að andlitsmeiðsli sín séu ekki alvarleg þó sauma hafi þurft 50 spor í vör hans og höku. Hann muni koma fljótt inní lið Chelsea á nýjan leik.

Cech lenti í hörðum árekstri við ísraelska varnarmanninn Tal Ben Haim á æfingu Chelsea á sunnudaginn. Vangaveltur hafa verið um að hann yrði ekki meira með Lundúnaliðinu á þessu tímabili og jafnvel ekki með Tékkum í úrslitakeppni EM í sumar.

„Ég gæti verið kominn í slaginn aftur eftir tvær vikur, það fer eftir því hvenær lýtalæknirinn gefur mér leyfi. Ég er viss um að við finnum fljótlega útúr því hvernig hlíf ég geti notað á æfingum, og eftir það er þetta allt undir mér komið. Þetta er ekkert alvarlegt. Aðalmálið er að koma í veg fyrir að sárin geti rifnað upp," sagði Cech við tékkneska blaðið Idnes í dag.

Hann sagði að um hreina óheppni hefði verið að ræða. „Svona staða kemur upp 50 sinnum á hverri æfingu en ég var bara óheppinn. Þetta er svekkjandi, ég var búinn að jafna mig á ökklameiðslunum og var tilbúinn til að spila þegar þetta gerðist. Vonandi er nú óheppnin endanlega að baki hjá mér," sagði Cech, sem höfuðkúpubrotnaði í leik Chelsea og Reading síðasta vetur og hefur síðan leikið með sérstaka húfu til hlífðar.

Cech gæti miðað við þetta náð stórleiknum gegn Manchester United þann 26. apríl en þar gætu úrslitin í baráttunni um enska meistaratitilinn farið langt með að ráðast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert