Liverpool og Chelsea sigruðu og mætast í undanúrslitum

Sami Hyypia er hér að jafna metin með glæsilegu skallamarki.
Sami Hyypia er hér að jafna metin með glæsilegu skallamarki. Reuters

Liverpool og Chelsea mætast í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu. Liverpool hafði betur gegn Arsenal, 4:2, og samanlagt, 5:3, í frábærum leik á Anfield og Chelsea bar sigurorð af Fenerbache, 2:0, og samanlagt, 3:2. Fyrri leikur Liverpool og Chelsea fer fram á Anfield.

Textalýsing frá leikjunum er hér að neðan.

Liverpool - Arsenal 4:2 (leik lokið) Liverpool áfram, 5:3

Arsenal byrjar leikinn á Anfield með miklum krafti en Lundúnaliðið verður að skora til að eiga möguleika á að komast í undanúrslitin. 

Einnar mínútu þögn er fyrir leikina í Meistaradeildinni til minningar um Mathieu Sprengers stjórnarmann í UEFA sem lést í vikunni.

MARK! 14. Abou Diaby skorar fyrir Arsenal eftir vel útfærða sókn. Diaby fékk sendingu frá Hleb og skoraði með föstu rétt fyrir utan vítateigshornið í nærhornið án þess að Reina kæmi vörnum við.

16. Phillipe Senderos miðvörður Arsenal fær að líta gula spjaldið fyrir brot á Steven Gerrard.

20 mínútur eru liðnar af leiknum og hefur Arsenal ráðið ferðinni. Minnstu munaði að Adebayor bætti öðru marki við en Reina náði að bjarga á síðustu stundu.

MARK! 30. Finninn Sami Hyypia jafnar metin með glæsilegu skallamarki eftir hornspyrnu frá Steven Gerrard. Boltinn fer í stöng og inn og átti Manuel Almunia enga möguleika á að verja.

Markið hefur hleypt miklu lífi í heimamenn og hefur Arsenal í tvívang sloppið með skrekkinn.

40. Arsenal þarf að gera skiptingu á liði sínu. Flamini meiðist og getur ekki haldið leik áfram og tekur Brasilíumaðurinn Gilberto Silva stöðu hans á miðjunni.

Svíinn Peter Frojdfeldt flautar til leikhlés. Staðan er kunnugleg eða 1:1, en liðin hafa gert þrjú jafntefli í vetur með þessari markatölu. Leikurinn hefur verið frábær skemmtum þar sem Arsenal var betri aðilinn fyrstu 25 mínúturnar en Liverpool sótti mjög í sig veðrið og var betra liðið síðustu 20 mínúturnar.

Liverpool byrjar seinni hálfleikinn eins og það endaði þann fyrri. Liðið hefur ráðið ferðinni fyrstu 10 mínúturnar og Arsenal gengið illa að byggja upp spil og hvað þá sóknir.

MARK! 69. Fernando Torres kemur Liverpool yfir með frábæru marki. Spánverjinn sneri Senderos af sér í vítateignum og skoraði með föstu skoti þar sem boltinn fór efst í markhornið. 29. markið hjá Torres á leiktíðinni og Liverpool er á leið í undanúrslitin eins og staðan er.

72. Arsenal gerir tvöfalda skiptinu. Eboe og Diaby fara af velli og inná eru komnir Robin van Persie og Theo Walcott.

74. Adebayor fær dauðfæri en skot hans er misheppnað og fer framhjá markinu.

77. Peter Crouch er tekinn af velli og inná í hans stað kemur Ryan Babel.

82. MARK! Emmanuel Adebayor jafnar metin fyrir Arsenal, 2:2, eftir glæsilegan einleik hjá Theo Walcott sem fékk boltann við eigin vítateig, lék á hvern Liverpool manninn á fætur öðrum og lagði boltann fyrir fætur Adebayor.

83. Liverpool fær vítaspyrnu eftir brot á Babel. Steven Gerrard tekur spyrnuna og skorar af miklu öryggi, 3:2.

85. Fernando Torres er kallaður af velli og Norðmaðurinn John Arne Riise leysir Spánverjann af hólmi.

89. MARK! Hollendingurinn Ryan Babel kemur Liverpool í 4:2, og tryggir Liverpool farseðilinn í undanúrslitin.

Liverpool: Reina, Carragher, Aurelio, Skrtel, Hyypia, Mascherano, Alonso, Kuyt, Gerrard, Torres, Crouch. Varamenn: Itandje, Voronin, Lucas, Benayoun, Babel, Riise, Arbeloa

Arsenal: Almunia - Toure, Gallas, Senderos,  Clichy - Eboue, Fabregas, Flamini, Diaby - Hleb, Adebayor. Varamenn: Lehmann, Van Persie, Song, Gilberto, Bendtner, Hoyte, Walcott.

Chelsea - Fenerbache 2:0 (leik lokið) samanlagt, 3:2

MARK! 5. Michael Ballack er búinn að koma Chelsea yfir með skallamarki eftir fyrirgjöf frá Joe Cole.

15. Joe Cole á skot í markstöngina en Chelsea-menn hafa byrjað leikinn af gífurlegum krafti og eiga Tyrkirnir í vök að verjast.

26. Carlo Cudicini markvörður Chelsea þarf að fara af velli vegna meiðsla og þar sem Petr Cech er meiddur tekur Portúgalinn Hilarío stöðu hans.

Búið er flauta til hálfleiks og er staðan, 1:0, fyrir Chelsea og þar með er jafnt samanlegt í einvígi liðanna, 1:1.

58. Chelsea framkvæmir aðra skiptingu. Hollendingurinn Salomon Kalou er tekinn af velli og inná í hans stað er kominn Brasilíumaðurinn Juliano Belletti.

Fenerbache svarar þessu með að skella gamla Chelsea manninum Mateja Kezman inná fyrir miðjumanninn Claudio Maldonado.

Volkan markvörður Fenerbache gerir vel með því að verja aukaspyrnu frá Didier Drogba. Staðan er enn 1:0.

87.MARK! Frank Lampard kemur Chelsea í 2:0 og er að tryggja sínum mönnum sæti í undanúrslitum.

Chelsea: Carlo Cudicini - Michael Essien, Ricardo Carvalho, John Terry, Ashley Cole - Joe Cole, Michael Ballack, Claude Makelele, Frank Lampard, Salomon Kalou - Didier Drogba. Varamenn: Hilarío, Shevchenko, Mikel, Malouda, Alex, Belletti, Anelka.

Fenerbache: Demirel - Gönul, Lugano, Edu, Vederson - Maldonado, Aurelío, Kazim - Deivid, Alex - Senturk.

West Ham - Portsmouth 0:1

61. Króatinn Niko Kranjar er búinn að koma gestunum yfir á Upton Park þar sem Hermann Hreiðarsson er í liði Portsmouth.

Abou Diarby kemur Arsenal yfir á Anfield í kvöld.
Abou Diarby kemur Arsenal yfir á Anfield í kvöld. Reuters
Emmanuel Adebayor og Javier Mascherano takast á í leik liðanna …
Emmanuel Adebayor og Javier Mascherano takast á í leik liðanna á Emirates í síðustu viku. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert