Torres fékk tilboð frá Arsenal

Fernando Torres fagnar einu af mörgum mörkum sínum fyrir Liverpool …
Fernando Torres fagnar einu af mörgum mörkum sínum fyrir Liverpool í vetur. Reuters

Fernando Torres vonast eftir því að skora fyrir Liverpool gegn Arsenal í Meistaradeild Evrópu í kvöld og koma liði sínu í undanúrslit keppninnar. Hann upplýsti í dag að Arsenal hefði á sínum tíma gert tilboð í sig.

Liverpool keypti Torres af Atlético Madrid á Spáni síðasta sumar en hann hafði þá um margra ára skeið verið afar eftirsóttur. Torres sagði í samtali við dagblaðið Liverpool Echo í dag að fyrir sex árum hefði allt farið af stað eftir að hann varð Evrópumeistari með U19 ára landsliði Spánverja.

„Þá byrjuðu tilboðin að streyma inn og eitt þeirra var frá Arsenal," sagði Torres. Atlético náði að halda honum í sínum röðum mun lengur en búist var við en Liverpool klófesti að lokum þennan snjalla framherja.

Torres á von á hörðum slag á Anfield í kvöld. „Við erum ánægðir með úrslitin í fyrri leiknum því við skoruðum á útivelli og náðum þar jafntefli. En það þýðir ekki að leikurinn í kvöld verði einfaldur. Arsenal er mjög gott lið og við verðum að spila afar vel til að sigra. Sjálfstraustið er til staðar hjá okkur því við við höfum leikið vel að undanförnu en það þýðir ekki að við teljum sjálfsagt að fara áfram. Það er fjallað um okkur sem sigurstranglegra liðið en ég tel möguleika liðanna jafna. Við höfum spilað þrisvar við Arsenal í vetur og úrslitin hafa alltaf orðið 1:1 og það sýnir vel að getumunurinn á liðunum er afskaplega lítill. Liðin þekkjast vel og bera virðingu hvort fyrir öðru, og leikurinn í kvöld verður því eflaust jafn spennandi og hinir," sagði Fernando Torres.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert