Frank Rijkaard þjálfari Barcelona hrósaði sínum mönnum fyrir sigurinn mikilvæga á Schalke í kvöld en með honum tryggðu Börsungar sér farseðilinn í undanúrslitin þar sem þeir eiga í höggi við Englandsmeistara Manchester United.
Þetta var mjög þýðingarmikill sigur. Ég er ánægður og óska leikmönnum mínum til hamingju en liðið barðist vel fyrir þessum úrslitum,“ sagði Rijkaard eftir leikinn en hann stýrði Börsungum til sigurs í Meistaradeildinni árið 2006.
Fyrir leikinn sagði ég að að Schalke væri erfitt lið að leggja að velli. Liðið hefur ekki bara góða einstaklinga heldur getur það skipt fljótt um gír og snúið vörn í sókn á skömmum tíma og að þeirri ástæðu þá þurftum við að hafa fyrir sigrinum,“ sagði Rijkaard.
Rijkaard segist hlakka til leikjanna á móti Manchester United. „Nú fáum við góðan tíma til að hugsa um leikina við United og það verða örugglega spennandi leikir,“ sagði Rijkaard, en fyrri leikurinn verður á Nou Camp þann 23. apríl.