Frank Lampard, enski landsliðsmaðurinn hjá Chelsea, segist ekki vera í sérstökum hefndarhug gagnvart Liverpool fyrir leiki liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu. Liverpool hefur tvisvar slegið Chelsea út í undanúrslitum keppninnar á undanförnum þremur árum.
Liðin mættust árið 2005 og þá réðust úrslitin, samanlagt 1:0, á umdeildu marki sem Luis Garcia skoraði í seinni leiknum á Anfield. Liverpool fór í úrslit og varð Evrópumeistari á ævintýralegan hátt. Síðasta vor áttust félögin við að nýju í undanúrslitum og eftir að þau höfðu unnið hvort annað 1:0 sigraði Liverpool í vítaspyrnukeppni.
„Hefnd er hættuleg tilfinning að taka með sér í fótboltaleik því það skiptir öllu máli að mæta yfirvegaður til leiks. Fyrri leikir liðanna hafa ekkert vægi í því hvernig þessir ganga fyrir sig. Í Meistaradeildinni er nauðsynlegt að halda einbeitingunni hverja mínútu og ef hefnd er ofarlega í huga er hætt við að skynsemin fái ekki að ráða eins og æskilegt er.
Þetta verða tveir ólíkir leikir og við þurfum að sjá til þess að við sýnum okkar bestu hliðar því þetta er frábært tækifæri til að komast í úrslitaleik keppninnar," sagði Lampard við BBC en hann innsiglaði sigur Chelsea á Fenerbache, 2:0, á Stamford Bridge í gærkvöld og enska liðið vann Tyrkina þar með 3:2 samanlagt.
Fyrri leikur Liverpool og Chelsea verður á Anfield 23. apríl og sá síðari á Stamford Bridge 30. apríl.