Rómverjar biðjast afsökunar á ummælum um Ronaldo

Philippe Mexes, varnarmaður Roma, liggur í valnum eftir að Cristiano …
Philippe Mexes, varnarmaður Roma, liggur í valnum eftir að Cristiano Ronaldo lék hann grátt í leiknum í Róm. Reuters

Luciano Spalletti, þjálfari ítalska knattspyrnuliðsins Roma, hefur beðist afsökunar á ummælum leikmanna sinna í garð Cristianos Ronaldos eftir fyrri leikinn gegn Manchester United í Meistaradeild Evrópu. Liðin mætast aftur á Old Trafford í kvöld en United vann 2:0 á Ítalíu í síðustu viku.

David Pizarro og Mirko Vucinic voru harðorðir í garð Ronaldos í viðtölum við fréttamenn eftir leikinn í Róm. Pizarro sagði að Ronaldo væri hrokafullur og leikmenn Roma myndu bregðast við því í seinni leiknum.

„Ronaldo er augljóslega góður í því að leika á menn en hann gengur of langt og við höfum látið hann vita af því," sagði Vucinic.

Spalletti sagði við fréttamenn í gær að það hefði verið rangt af sínum mönnum að láta orð sem þessi falla. „Sumt af því sem okkar menn sögðu eftir leikinn var látið falla í hita augnabliksins, þar sem við vorum sárir vegna ósigurins. Vonbrigðin voru mikil og stundum missa menn útúr sér orð sem betur væru ósögð og það gerðist í þetta sinn.

Ronaldo er frábær leikmaður og hefur sýnt það á allan hátt í sínum leik. Hann er mjög áberandi leikmaður á vellinum, en jafnframt heiðarlegur," sagði Spalletti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka