Spænska sjónvarpsstöðin La Sexta fullyrti í dag að Real Madrid hafi ákveðið að bjóða Manchester United 100 milljónir punda, ríflega 14 milljarða íslenskra króna, í portúgalska knattspyrnusnillinginn Cristiano Ronaldo.
Real Madrid á heimsmetið á þessu sviði en spænska félagið greiddi Juventus jafnvirði 46 milljóna punda, 6,5 milljarða króna, fyrir Zinedine Zidane árið 2001.
Real hefur ítrekað lýst yfir áhuga sínum á að krækja í Ronaldo og ekki farið leynt með, og Manchester United hefur ítrekað gefið til kynna að hann sé ekki til sölu, hvaða upphæð sem í boði kunni að vera.
La Sexta hefur mjög náin tengsl við hátt setta stjórnarmenn Real Madrid og fréttin er talin hafa komið þaðan.
Fréttinni fylgdi að forráðamenn Real Madrid gerðu sér ekki miklar vonir um að kollegar þeirra hjá Manchester United myndu láta freistast þrátt fyrir þessa upphæð.