Jens Lehmann, þýski landsliðsmarkvörðurinn í knattspyrnu, hefur á nýjan leik lýst yfir óánægju sinni með það hlutskipti sitt í vetur að vera varamarkvörður Arsenal.
Arsene Wenger knattspyrnustjóri hefur tekið Spánverjann Manuel Almunia framyfir Lehmann í vetur, Þjóðverjanum til lítillar kátínu, en hann er kominn á lokasprettinn á ferlinum, 38 ára gamall. Lehmann mun að óbreyttu verja mark Þjóðverja í úrslitakeppni EM í sumar en staða hans hjá Arsenal hefur þó sett það í nokkra hættu.
„Mér finnst ekkert sniðugt að neyðast til að sitja á varamannabekknum og víkja fyrir manni sem komst ekki í lið fyrr en hann var orðinn þrítugur. Ég er mjög svekktur yfir þessu. Ég hélt áfram hjá félaginu með það að markmiði að vinna Meistaradeild Evrópu og taldi mig eiga alla möguleika á að spila. Ég er verulega reiður yfir því að það skyldi ekki ganga eftir. Ef stjórinn hefði sagt mér í byrjun tímabils hvað hann ætlaðist fyrir, hefði ég getað tekið um það ákvörðun sjálfur hvort ég hefði viljað sitja á varamannabekknum," sagði Jens Lehmann við þýska tímaritið Kicker í dag.