Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United stefnir að því að gera út um vonir Arsenal með að vinna enska meistaratitilinn og um leið stíga einu skrefi nær 17.meistaratitli félagsins með því að leggja Arsenal að velli á Old Trafford á sunnudaginn.
„Með sigri þá gerum við nánast út um vonir Arsenal og við viljum gera það. Það eru ekki nema fimm leikir af mótinu og Arsenal má ekki við því að tapa fleiri stigum. Það er mikilvægt að vinna alla leiki núna. Við töpuðum tveimur stigum um síðustu helgi og við þurfum að komast á sigurbraut á ný,“ sagði Ferguson á vikulegum fréttamannafundi á Old Trafford í dag.
United er sex stigum á undan Arsenal sem er í þriðja sæti en aðeins þremur stigum á undan Chelsea sem ekki á leik fyrr en á mánudag þegar það fær Wigan í heimsókn.
,,Við búum okkur undir mjög erfiðan leik eins þeir eru jafnan gegn Arsenal, sem hefur verið okkar helsti keppinautur í meira en 15 ár,“ sagði Ferguson.
Nemanja Vidic og Nani verða ekki með Manchester-liðinu á sunnudaginn en Ferguson vonast til að geta nýtt krafta þeirra um næstu helgi þegar liðið mætir Blackburn.