Ívar: Þurfum fleiri stig

Ívar Ingimarsson í baráttu við Fernando Torres hjá Liverpool.
Ívar Ingimarsson í baráttu við Fernando Torres hjá Liverpool. Reuters

Ívar Ingimarsson, sem er fyrirliði ehska knattspyrnuliðsins Reading þessa dagana, segir í viðtali á vef félagsins í dag að leikurinn gegn Fulham á morgun sé liðinu gífurlega mikilvægur.

Reading er með 32 stig og enn í fallhættu en fyrir neðan eru Birmingham með 30 stig, Bolton með 26, Fulham með 24 og Derby með 11 stig. Mestar líkur virðast á að Bolton og Fulham fylgi Derby niður í 1. deildina og Reading getur farið langt með að tryggja sér áframhaldandi sæti í úrvalsdeildinni með sigri á morgun.

„Ég hef góða tilfinningu fyrir leiknum og hlakka til hans. Það eru fáir leikir eftir og það er afar mikilvægt að við náum okkur í fleiri stig. Æfingarnar hafa verið eins og venjulega en það vita allir hve miklu máli þessi leikur skiptir því stigin eru dýrmæt. Áframhaldið er í okkar höndum og þannig viljum við hafa það. Við þurfum að vinna leikinn, þá þurfum við ekki að treysta á aðra," sagði Ívar en hann er varafyrirliði liðsins og fyrirliðinn Graeme Murty er fjarverandi vegna meiðsla um þessar mundir.

„Við lékum illa gegn Newcastle um síðustu helgi og þannig er úrvalsdeildin. Ef menn sýna ekki sitt besta eru þeir í vandræðum. Við byrjuðum reyndar leikinn vel en í heild var hann ekki nógu góður og við verðum að gera betur. Við höfum átt góðu gengi að fagna í næstu leikjum á undan, höfðum átt okkar besta kafla í langan tíma, og vonandi höldum við áfram á þeirri  braut gegn Fulham," sagði Ívar Ingimarsson.

Uppselt er á leikinn á Madejski-leikvanginum í Reading sem hefst klukkan 14 að íslenskum tíma. Brynjar Björn Gunnarsson er enn frá keppni vegna meiðsla en hann er á góðum batavegi og ætti að ná að spila með liðinu á ný áður en tímabilið er úti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert