Ledley King, fyrirliði enska knattspyrnuliðsins Tottenham Hotspur, segir að ekkert sé hæft í fregnum hinna ýmsu fjölmiðla að undanförnu um að hann sé í þann veginn að leggja fótboltaskóna á hilluna vegna meiðsla.
King hefur misst mikið úr í vetur vegna meiðsla í hné og mun ekki spila meira á þessu tímabili þar sem ákveðið var, eftir að ljóst var að Tottenham hefði ekki að meiru að keppa, að setja hann strax í meðferð til að fá hann góðan fyrir næsta tímabil.
„Ég hef lesið margar fréttir um stöðu mína undanfarnar vikur en ég er handviss um að þegar ég fæ hnéð loksins í lag, verði þessi vandræði úr sögunni. Þetta er bara orðrómur og ég hef ekki hugmynd um hvaðan hann er sprottinn. Það er er aldrei gaman að lesa svona lagað um sjálfan sig en mér finnst ég ekki þurfa að sanna neitt fyrir neinum, allt sem ég stefni að er að spila fótbolta. Ég er ekki að hætta, það er einfaldasta svarið," sagði King í samtali við tímaritið Sport í dag.
Hann kvaðst jafnframt afar ánægður með að Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englands, skyldi velja sig í landsliðshóp sinn í febrúar, þrátt fyrir öll meiðslin. „Það gaf mér byr undir báða vængi, það var frábært að finna að ég væri inni í myndinni hjá honum. Ég stefni að því að spila fyrir Englands hönd en sem stendur er fyrsta markmiðið að spila reglulega með mínu liði. Ég vil vera 100 prósent öruggur um að vera orðinn heill heilsu áður en ég fer að hugsa af alvöru um landsliðið aftur," sagði King.
Hann er 27 ára gamall og uppalinn hjá Tottenham en hann spilaði sinn fyrsta leik með aðalliði félagsins gegn Liverpool á Anfield í maí 1999. King á 18 landsleiki að baki fyrir Englands hönd.