Breskir fjölmiðlar greina frá því í dag að Cristiano Ronaldo sé í viðræðum við Manchester United um nýjan fimm ára samning við félagið sem felur í sér verulega launahækkun og myndi gera hann að launahæsta leikmanni ensku úrvalsdeildarinnar.
Nýi samningurinn, sem er sagður í burðarliðnum, er metinn á 40 milljónir punda, sem jafngildir 5,8 milljarða króna, og fengi Portúgalinn 150.000 pund í vikulaun sem samsvarar 21,6 milljónum íslenskra króna en laun hans í dag eru 100.00 pund á viku, 14,5 milljónir króna.
Launahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar í dag er John Terry, fyrirliði Chelsea, en vikulaun hans nema 130.000 pundum, 18,8 milljónir króna.
Ronaldo á fjögur ár eftir af núgildandi samningi sínum við Manchester United en hann skrifaði undir fimm ára samning fyrir réttu einu ári síðan. United festi kaup á Portúgalanum fyrir fimm árum frá Sporting Lissabon og er óhætt að segja að hafi reynst félaginu sannkallaður gullmoli.
Ronaldo átti frábært tímabil á síðustu leiktíð og var útnefndur knattspyrnumaður ársins og á yfirstandandi tímabili hefur hann leikið stórkostlega og er á góðri leið með að verða besti leikmaður félagsins frá upphafi og sá besti í heimi að margra mati.